Jakaber í sjávarréttabúningi

Samblandan af framandi jakaberjunum og íslenskum stórþara spilar æðislega vel saman í þessum rétti sem ber sterkan keim af plokkfiskrétti. Ég sé fyrir mér að hafa þennan rétt á boðstólnum í hverjum mánuði. Sjávarbragð er nefnilega eitthvað sem ég kann vel að meta.

Jakaber eða Saðningaraldin er dásamlegur ávöxtur, betur þekktur sem Jackfruit á ensku. Ég hef ekki enn gerst svo heppin að smakka hann ferskann, einungis niðursoðinn í saltvatni. Hann er álíka og tófú, bragðlítill einn og sér en býður upp á heilmarga möguleika í matreiðslu. Áferðin er ólík öðru sem ég hef matreitt á vegan ferðalagi mínu í eldhúsinu. Blautt og tætist niður í skemmtilega áferð. Ég held að allir hafi gott af því að bæta sjávarfangi á diskinn sinn. En það þarf ekki að koma frá dýrum. Hafið er yfirfullt af hundruðum ef ekki þúsundum plantna sem við höfum ekki enn fengið að smakka.

 

INNIHALD:

 • 2 msk af vegan smjöri
  (ég notaði Earth Balance sem fæst m.a. í Hagkaup og Gló-Fákafeni. Einnig er hægt að nota Nutana úr Krónunni eða gamla smjörlíkið)
 • 1/2 laukur
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk karrý
 • 1 tsk grænmetiskraftur
 • 3 msk hveiti
 • 3-4 dl af jurtamjólk
  (ég notaði haframjólk með góðum árangri. Ég hugsa að sojamjólk komi alveg jafn vel út)
 • 1 tsk af Kelp stórþara
 • 3 msk vatn
 • 1 dós af Jakaberjum
  (Young Green Jackfruit in Brine)
 • 300 gr af soðnum kartöflum
 • Salt og pipar eftir smekk. Ég mæli með ca 1/2 tsk hvort. En um að gera að prófa sig áfram, smá í einu.

LEIÐBEININGAR:

 1. Sjóðið kartöflur, ca 300 gr.
 2. Bræðið smjörið á pönnu, steikið laukinn í nokkrar mínútur þar til hann verður glærleitur.
 3. Bætið smátt skornum hvítlauki við, ásamt karrýinu og grænmetiskraftinum, leyfið að malla á pönnunni í ca mínútu.
 4. Blandið hveitinu vel saman við.
 5. Bætið nú mjólkinni út á pönnuna, einn dl í einu og hrærið vel á milli. Mér finnst betra að hafa réttinn blautari og nota því 4 dl í stað 3ja.
 6. Bættu stórþarakornunum út í ásamt vatninu og hrærðu því vel saman við.
 7. Nú er komið að skemmtilega partinum, að rífa niður aldinkjötið. Í hverjum bita er harður partur, svipað og á ananas. Ég hef ekki notað þann part þar sem hann er ekki með áferðina sem ég sækist eftir. Í stað þess að skera það af nota ég hendurnar því þá næ ég að nýta aldinkjötið sem best. Í sumum bitum eru misstór fræ og belgurinn utan um þau, ég fjarlægi það líka. Bætið þessu jafnóðum á pönnuna, sjá mynd að neðan.
 8. Erfiðasti parturinn varðandi þennan rétt er að skræla heitar kartöflurnar. Ég mæli með að vera búin að sjóða þær aðeins fyrr og ná að kæla þær í vatni. Skera þær svo í litla bita og bæta út á pönnuna.
 9. Látið réttinn malla á lægsta hita í 4-7 mínútur, svo jakaberin nái að draga bragðið í sig.
 10. Hægt er að útfæra réttinn á nokkra vegu eins og sést fyrir neðan. Þetta dugir fyrir ca 2-3 fullorðna.

Búið að hella safanum frá. Nú bíða bitarnir eftir því að verða bætt á pönnuna

Niðurtætt jakaber komin á pönnuna.

LEIÐBEININGAR – AÐRAR ÚTFÆRSLUR:

 1. Hægt er að setja réttinn í eldfast mót og inn í ofn þegar öllu hefur verið blandað saman. Með rifnum vegan osti yfir. Gott er að hafa ferskt salat með eða létt gufusoðið spergilkál (með smá salti og næringargeri yfir, því það er æðislega gott).
 2. Það er jafnvel hægt að vefja þessu inn í nori þarablöð eins og notað er í sushi gerð. Það gerir þetta að mínu mati ennþá betra og dýpkar sjávarbragðið enn meira. Nori blöðin verða þó blaut og örlítið seig undir tönn, en það er algjörlega þess virði. Ég lofa! Það er fallega litríkt að bera þetta fram með soðnum rófum, gulrótum og blómkáli.

  Hér hefur réttinum verið komið fyrir í nori blaði. Rúllað saman á álíka hátt og tortilla.

Ekki láta það draga úr þér máttinn að prófa þetta þó þú hafir aldrei heyrt um Kelp eða Jakaber, hvað þá keypt það. Ég mæli sterklega með því að Kelp sé eitthvað sem þú bætir við í eldhússkápinn. Ég mun bæta við fleiri réttum innan tíðar með þessu innihaldsefni auk þess sem það geymist ákaflega vel í loftþéttum umbúðum. Inn á síðu Íslenskrar Hollustu er hægt að finna sölustaðina.

Jakaber er yfirleitt hægt að fá í Fiska.is – Asian Supermarket, í Asian Market í Faxafeni (beint á móti 66°norður) og í Vietnam Market á Suðurlandsbraut. Passa samt upp á að kaupa dós merkta Young Green Jackfruit in Brine, í saltvatni – ekki í sýrópi.

Verum hugrökk í eldhúsinu,
kveðja Elísabet

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *