Hjartanlega velkomin á Vegan Lífið!

Hjartanlega Velkomin á Vegan Lífið!

Hér er meiningin að vera með fræðslugreinar úr ýmsum áttum tengdar veganisma ásamt uppskriftum og leiðbeiningum fyrir nýtt vegan fólk að feta sín fyrstu spor inn í Lífsstílinn!

Gott er að hafa í huga að veganismi er ekki matarræði þó að sjálfsögðu er val vegan fólks á matvörum stór þáttur af því. Á þessari síðu er ætlunin að fjalla um allar hliðar veganismans. En byrjum á að fara yfir hugtakið ,,VEGAN“

 

Undanfarin ár hefur Veganismi vaxið ásmegin og breiðist hratt út á okkar tækniöld, en það þýðir ekki að hann sé nýtt fyrirbæri, langt í frá. Fyrstur til að lifa opinberlega og skrásetja lífsgildi veganisma var Gríski stærðfræðingurinn Pythagoras fyrir meira en 2000 árum síðan. Þess má geta að orðið Vegan varð ekki til fyrr en 1944 en fram að því kallaði vegan fólk sig einnig grænmetisætur (vegeterian) en orðið er saman sett úr þremur fyrstu bókstöfunum og tveimur síðustu í orðinu VEGeteriAN. Margir Íslendingar hafa tekið fyrir orðið Grænkeri en það hefur þó einnig verið notað af Grænmetisætum, því er orðið Vegan skýr tilvitnun í þann lífsstíl.

Formleg skilgreining var einnig sett saman 1944 og hljóðar hún nokkurn vegin svona:

,,Lífspeki & lífsstíll sem felur í sér að útiloka, eins og mögulegt er og framkvæmanlegt allar gerðir af notkun og grimmd í garð dýra fyrir mat, föt eða í öðrum tilgangi. Sem þar af leiðandi stuðlar notkun og þróunar á vörum lausum við dýraafurðir í þágu mannkynsins, dýra og umhverfisins. Í matarræði á það við að sleppa öllum afurðum framleiddar algjörlega úr eða að hluta úr dýrum eða þeirra afurðum. “

Þetta þýðir ekki að vegan fólk sé fullkomið, heldur að það reyni eftir fremsta megni að nota ekki dýrafurðir, vörur sem prófaðar hafa verið á dýrum og forðast að greiða fyrir viðburði þar sem dýr eru notuð sem skemmtun. Lykilorðið hér er ,,þörf“. Við þurfum ekki kjöt, mjólk, egg, hunang, býflugnavax, leður, feldi, silki, eða ull til að lifa af og auðvelt er í nútíma samfélagi að sneiða fram hjá slíkum afurðum.

Mín persónulega skoðun er sú að veganismi er ekki bara lífsspeki og lífsstíll heldur einnig pólitísk yfirlýsing, það þarf breytt bak og mikinn styrk til að lýsa sér sem vegan manneskju þar sem orðið hefur nú þegar unnið sér inn dálitla forboðna merkingu og er mjög gildishlaðið.

 

Hér eru nokkur hugtök til aðgeiningar:

Alæta

Manneskja sem borðar allar dýraafurðir.

 

Flexiterian

Manneskja stillir dýraafurðarneyslunni sinni í hóf og kaupir aðeins dýraafurðir frá stöðum þar sem þau þekkja upprunann vel og aðstöðu dýranna þar.

 

Pesciterian

Manneskja sem borðar ekki landdýr, en borðar sjávardýr og dýraafurðir eins og mjólk, egg & hunang.

 

Grænmetisæta

Manneskja sem borðar ekki dýrin sjálf en borðar dýraafurðir eins og mjólk, egg & hunang.

  1. Mjólkurlaus grænmetisæta, sneiðir einnig fram hjá mjólkurvörum en borðar egg.
  2. Eggjalaus grænmetisæta, sneiðir einnig fram hjá eggjum en borðar mjólkurvörur.

 

Whole food plant based

Manneskja sem borðar engin dýr né dýraafurðir en forðast einnig unnar vörur eins og soyakjöt, hvítt hveiti & mataroliu. Slíkur einstaklingur gætir þess að fá næringuna úr plöntunum eins og þær koma fyrir, hvort sem eru kornmeti, hnetur, ávextir, sveppir & grænmeti. Whole Food Plant Based er fyrst og fremst matarræði og viðkomandi þarf ekki að vera vegan þó svo að hann neyti ekki dýraafurða. T.d. gæti viðkomandi kaupir uppþvottalög sem er prófaður af dýrum, kaupir ull eða jafnvel hunang.  Margir sem ,,verða vegan vegna heilsunnar“ eru í raun Whole Food Plant Based.


Plant based

Manneskja sem borðar ekki dýraafurðir en er ekki vegan, t.d. vegna umhverfisáhrifa dýraafurða neyslunnar eða heilsunnar vegna.

 

Vegan

Einstaklingur sem er hættur að greiða fyrir dýr eða dýraafurðir, hvort sem þau eru lífs eða liðin, hvort sem það er til matar eða annarar neyslu og sneiðir fyrst og fremst fram hjá þessum vörum til að takmarka notkun og þjáningu dýra. Vegan einstaklingur gæti samt sem áður notað vörur sem voru keyptar áður en hann gerðist vegan, t.d. ullarsokkana sem amma prjónaði, gamla leðurjakkann hans pabba sem endist í áratugi. Vegan fólk hefur margt einnig keypt gæludýr áður en það varð vegan, þessi dýr eru áfram velkomin á þeirra heimili og fá oftast að klára ævi sína hjá þeim. Einnig gerir flest vegan fólk sér grein fyrir því að fædd eru ógrynni af dýrum sem þurfa samastað og því tekur vegan fólk oft að sér gæludýr sem eru í heimilsleit en þau greiða ekki fyrir, þar sem það styrkir gæludýra iðnaðinn og frekari framleiðslu á gæludýrum. Þau greiða ekki fyrir dýraafurðir í stórmarkaði þar sem það gerir okkurat sama hlut.  Þó svo að vegan fólki sé annt um umhverfið, heilsuna og þá sem minna mega sín af mannfólki í heiminum er skilgreiningin á Veganisma fyrst og fremst ætluð þeim sem gera þessar lífstílsbreytingar fyrir dýrin, það þýðir ekki að vegan fólk reyni ekki sitt allra besta á öðrum sviðum, eins og að styrkja málefni fatlaðra, styrkja samtök sem fæða hungraða, reyna að takmarka mengun af sínum völdum eða reyna að borða hollt. En ekki allt vegan fólk borðar hollt, enda er til ógrynni af fjöbreyttum vegan vörum sem hafa ekkert með hollustu að gera. Veganismi hefur ekkert með hollustu að gera þó svo eins og í flestum lífstílum er hægt að borða mjög hollt og næringarríkt sem vegan.

 


Kveðja Vigdís