8 mikilvæg skref að því að gerast Vegan

Fyrir nokkru tók ég þá ákvörðun að gerast Vegan (ísl. Grænkeri) og þótt ég sé ekki orðin neinn meistari langaði mér að deila með ykkur reynslu minni og ráðum ef einhverjum gagnast. Grænkerar eru þeir sem nota ekki dýraafurðir. Hér ætla ég að tala um mataræðisbreytinguna.

1) Vertu viss um afhverju þú ert að taka þessa ákvörðun

Þeir grænkerar sem ég hef hitt síðan ég breytti um mataræði hafa gert það af mismunandi ástæðum. Sumir hafa heilsuna í fyrirrúmi, flestir gerast grænkerar vegna umhverfis eða dýraverndarsjónarmiða og enn aðrir eru einfaldlega nýjungagjarnir. Það skiptir þónokkru máli að vita afhverju þú ert að breyta til því það hjálpar þér að halda þig við ákvörðunina seinna meir ef þú vilt halda út til lengdar.

2) Taktu ákvörðun um hve hratt þú ætlar af stað

Sumir gerast grænkerar á viku og aðrir taka sér lengri tíma til. Ef þú ert ekki ennþá viss er líklegast best að skipta út einu atriði í einu og nálgast þannig takmarkið hægt en sígandi. Engin þarf að vera fullkominn og öll skref sem þú tekur hafa einhver áhrif. Ef þú ert allveg viss eins og ég var er best að skella sér bara í djúpu laugina, ég ákvað að klára það sem væri ekki viðeigandi fyrst úr eldhúsinu og reyna eftir bestu getu að kaupa eingöngu Vegan inn það sem ég keypti eftir það. Það hefur reynst mér mjög vel. Það kom mér líka mikið á óvart hve margt var Vegan sem ég átti. Hverjum hefði til dæmis dottið í hug að rjómalagða brokkolísúpuduftið og brauðið sem ég kaupi alltaf væri Vegan! Sumir gefa hlutina sem passa ekki í mataræðið eða láta þeim sem ekki eru grænkerar eftir á heimilinu að klára kjötið.

3) Skoðaðu hvað þú þarft að helst að forðast

Hér er ég að tala um það sem er stærsti partur mataræðisins sem þú átt eftir að hætta að borða. Hjá mér voru til dæmis mjólkurvörur stærsta hindrunin. Ég drakk alltaf drykkjarjógúrt ef ég vissi ekki hvað mig langaði í og vantaði hraðan millibita, ég drakk mikið af kókómjólk, og ostur og skyr voru mjög mikið nammi fyrir mér auk auðvitað eftirrétta eins og ís. Mjólk og kókómjólk var lítið vandamál, það eru svo margar tegundir af plöntumjólk að vandinn er bara að velja úr þeim. Ég ákvað að eiga alltaf banana fyrir skyndihungur og seinna keypti ég mér allskyns millibita eins og fíkjustykki. Ég ákvað að láta skyrið mæta afgangi og ég hef ekki fundið þörf fyrir það ennþá og ég er ennþá að prófa þá tugi jurtaosta sem í boði eru. Sumir eru æði, aðrir henta mér ekki og svo er fáránlegt hve næringarger er góður bragðstaðgengill fyrir ost í sósur og annað slíkt. Viku eftir að ég gerðist grænkeri kom svo Vegan Ben&Jerry’s í búðir. Einhver æðri máttur elskar mig greinilega. Atriði 1 á þessum lista heldur mér svo við efnið .

4) Eignastu vini sem kunna þetta (alvöru og á netinu)

Ástæðan fyrir því að ég gerðist grænkeri var að vinur minn sem býr úti gisti hjá mér og eldaði Vegan fyrir mig í viku. Heppna ég. Þetta hafði alveg hvarflað að mér fyrr en vinur minn kláraði málið. Ég fann mikin mun á meltingunni og elskaði matinn svo ég fór bara af stað. Hann er löngu farinn heim en ég kom mér upp tengslum við Íslendinga á Facebook og afþví ég er mikið á Snapchat þá er það gæðavettvangur til að tengjast fólki (bættu mér við barahalldors ;). Youtube er líka troðið af Vegan dýrgripum og svo er ekkert að því að lesa eina og eina bók eða vefsíðu. Grænkerar er allir búnir að vera í þínum sporum og eru fáránlega tilbúnir að svara furðulegustu spurningum. Það er líka mikill stuðningur í að tengjast öðrum sem eru að gera það sama og þú.

5) Vertu tilbúin/n með nokkrar grunnuppskriftir (alvöru og á netinu)

Hugmyndaleysið er algerlega magnað þegar maður hefur verið að elda sama matinn alla ævi. Hér eru mínar grunnuppskriftir og fyrstu vikurnar eldaði ég bara þær. Svo bættust ýmsir hlutir við:

  1. Seitan í stað kjöts
  2. Tófú hræra sem bragðast eins og eggjahræra
  3. Mac & Cheese sem sannfærði mig um að ostur væri aukaatriði
  4. Magnað grænkálssalat
  5. Morgun hristingur

6) Skoðaðu búðir sem sérhæfa sig í hráefnum fyrir grænkera og farðu út að borða þar sem er Vegan matseðill

Margar af mínum bestu hugmyndum hef ég fengið af því að borða mat hjá öðrum eða skoða í hillur. Fáðu líka nýju vinina þína til að segja þér hvað og hvernig þeir kaupa inn. Eða gömlu vinina ef þú ert svo heppin/n að eiga þegar grænkera vini. Kíktu á Vegan veitingastaði, það er miklu meira en bara salat í boði.

7) Vertu viðbúin/n að gera mistök

Ég veit ekki hve oft ég keypti eitthvað með eggjum eða mjólk óvart fyrstu vikurnar. Þar sem ég gat skilaði ég vörunni en annars bara borðaði ég matinn og lærði af reynslunni. Mundu líka að Veggie er ekki endilega Vegan heldur oft Vegiterian (fyrir grænmetisætur). Munurinn er að Vegiterians borða líka mjólkurvörur og egg. Gott ráð sem vinur minn kenndi mér var að egg og mjólk eru oft feitletruð í innihaldslýsingum afþví þau eru ofnæmisvaldar og því auðvelt að sjá það út í mörgum tilfellum.

8) Vertu tilbúin/n ef fjölskyldan fylgir ekki með í pakkanum

Það að þú ákveðir að gerast grænkeri þýðir ekki að fjölskyldan þín fylgi með. Ég er eina Vegan manneskjan á mínu heimili, maðurinn minn er að mestu leyti farinn að borða það sama og ég en sonur minn fylgdi bara að hluta til með. Þegar ég fer á annarra manna heimili reyni ég að gera ráð fyrir að taka með mér aukabita og afþví að ég get ekki drukkið kaffi án mjólkur tek ég mína eigin jurtamjólk með mér hvert sem ég fer. Smám saman er ég líka farin að vita hvað er óhætt að borða og hvað ekki og get þá nýtt mér það á ferðum mínum.

Gangi þér vel!
Kveðja Bára

Þessi grein birtist upphaflega á Kvennablaðinu 23.09.2016 og er birt hér með góðfúslegu leyfi þess og höfundar, Báru Halldórsdóttur.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *