Mexikönsk súpa

Það eru allskonar útgáfur til af Mexikó súpum bæði vegan og með dýraafurðum, mér datt því í hug að deila minni útgáfu.

Þessi útgáfa er nú frekar einföld og hægt að grípa í hana frosið niðurskorið grænmeti úr frystunum í matvöruverlsunum.

INNIHALD – SÚPAN:

 • 1 L Plöntumjólk
 • (Ég nota bláa provamel soyamjólk, finnst hún gefa creamy áferð, en hvaða plöntumjólk sem er dugar fyrir þá sem ekki þola soya).
 • 1 krukka salsa sósa (250-300g)
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1/2 msk Túrmeric
 • 1/2 msk Paprikuduft
 • 35g grænmetis kraftur
  (ég nota 1x Kallø grænmetis tening og 2x Kallø tómat tening, en hægt að skipta út fyrir svipað magn af öðrum grænmetiskraft)
 • 70g tómatpúrra
 • 1x laukur (100-150g)
 • 3-5 geirar Saxaður hvítlaukur (c.a. 35g)
 • 1 chilli (15g c.a.)
 • 3-5 límónulauf (lime leaves).
 • 1/2 tsk kóríanderfræ
 • 1 Rauð paprika (200g c.a.)
 • Matarolía til steikingar
  (má sleppa og nota smá vatn í staðin til að steikja uppúr).

INNIHALD – BÆTT VIÐ EFTIR AÐ SÚPAN ER TILBÚIN:

 • 1 dós Maísbaunir
 • 1 dós Kjúklingabaunir
 • 1 dós Pintobaunir eða svartbaunir
 • 1 Sæt kartafla (600g c.a.)
 • Matarolía, salt, timjan & hvítlauksduft á kartöfluna.

 

Hitið ofninn í 170°C á blæstri
(til að ofnbaka kartöfluna í teningum)

LEIÐBEININGAR:

 • Byrja á því að rista kóríanderfræin á meðalhita í potti, myl svo í mortéli.
 • Grænmetið saxað fínt, laukur, chilli, kóríanderfræin og hvítlaukur svitað í pottinum með matarolíu eða vatni.
 • Paprikunni bætt út í og steikt aðeins lengur.
 • Grænmetiskraft, púrru, túrmerik, paprikudufti, plöntumjólk, kókosmjólk, salsasósunni og límónulaufum bætt í pottinn.
 • Látið malla eins lengi og er tími fyrir, því lengur því betra. Súpan verður þykk þannig en ef það er lítill tími má stytta sér leið með að hrista saman smá maizenamjöl og kalda soyamjólk til að þykkja súpuna með.

 

Mér finnst gott að bæta ofan í súpuna ofnbakaða sæta kartöflu með smá olíu, timjan, hvítlauksdufti og salti ásamt baunum til að hún sé matarmeiri. Til eru frábærir vegan rjómaostar og sýrður rjómi sem hægt er að bera súpuna fram með ásamt tortilla flögum til að mylja yfir.

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

Auðveldur Smjörbaunaréttur

Afar einfaldur Smjörbaunaréttur sem tekur aðeins 20-30 mín að útbúa, mjög góður með kínóa, hrísgrjónum eða pasta.

INNIHALD:

 • 1 Rauð paprika
 • 4-6 tómatar
 • 3 sellerí stönglar
 • 2 gullrætur
 • 1 Rauðlaukur
 • 2 hvítlauksgeirar
 • Salt
 • Hvítvíns edik
 • Matarolía

LEIÐBEININGAR:

Steiktu laukin upp úr olífuolíu ásamt því að setja pressaðann hvítlaukinn út í, Bættu svo við skornum gulrótunum (skolaðar, með hýði). Næst eru tómatarnir skornir í bita með öllu gumsiu innaní, sellerí stilkarnir og paprikan skorin í bita og bætt út í. Baunirnar fara næst með safanum. Svo 2 msk af ediki og 2msk af olífuolíu. Baunasafinn, edikið og olífuolían er galdurin við góðann baunarétt. Láttu þetta sjóða svoldið niður svo að sósan verði ponsu þykkari og voila serve!

Njótið vel,
kveðja Vigdís

Jakaber í sjávarréttabúningi

Samblandan af framandi jakaberjunum og íslenskum stórþara spilar æðislega vel saman í þessum rétti sem ber sterkan keim af plokkfiskrétti. Ég sé fyrir mér að hafa þennan rétt á boðstólnum í hverjum mánuði. Sjávarbragð er nefnilega eitthvað sem ég kann vel að meta.

Jakaber eða Saðningaraldin er dásamlegur ávöxtur, betur þekktur sem Jackfruit á ensku. Ég hef ekki enn gerst svo heppin að smakka hann ferskann, einungis niðursoðinn í saltvatni. Hann er álíka og tófú, bragðlítill einn og sér en býður upp á heilmarga möguleika í matreiðslu. Áferðin er ólík öðru sem ég hef matreitt á vegan ferðalagi mínu í eldhúsinu. Blautt og tætist niður í skemmtilega áferð. Ég held að allir hafi gott af því að bæta sjávarfangi á diskinn sinn. En það þarf ekki að koma frá dýrum. Hafið er yfirfullt af hundruðum ef ekki þúsundum plantna sem við höfum ekki enn fengið að smakka.

 

INNIHALD:

 • 2 msk af vegan smjöri
  (ég notaði Earth Balance sem fæst m.a. í Hagkaup og Gló-Fákafeni. Einnig er hægt að nota Nutana úr Krónunni eða gamla smjörlíkið)
 • 1/2 laukur
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk karrý
 • 1 tsk grænmetiskraftur
 • 3 msk hveiti
 • 3-4 dl af jurtamjólk
  (ég notaði haframjólk með góðum árangri. Ég hugsa að sojamjólk komi alveg jafn vel út)
 • 1 tsk af Kelp stórþara
 • 3 msk vatn
 • 1 dós af Jakaberjum
  (Young Green Jackfruit in Brine)
 • 300 gr af soðnum kartöflum
 • Salt og pipar eftir smekk. Ég mæli með ca 1/2 tsk hvort. En um að gera að prófa sig áfram, smá í einu.

LEIÐBEININGAR:

 1. Sjóðið kartöflur, ca 300 gr.
 2. Bræðið smjörið á pönnu, steikið laukinn í nokkrar mínútur þar til hann verður glærleitur.
 3. Bætið smátt skornum hvítlauki við, ásamt karrýinu og grænmetiskraftinum, leyfið að malla á pönnunni í ca mínútu.
 4. Blandið hveitinu vel saman við.
 5. Bætið nú mjólkinni út á pönnuna, einn dl í einu og hrærið vel á milli. Mér finnst betra að hafa réttinn blautari og nota því 4 dl í stað 3ja.
 6. Bættu stórþarakornunum út í ásamt vatninu og hrærðu því vel saman við.
 7. Nú er komið að skemmtilega partinum, að rífa niður aldinkjötið. Í hverjum bita er harður partur, svipað og á ananas. Ég hef ekki notað þann part þar sem hann er ekki með áferðina sem ég sækist eftir. Í stað þess að skera það af nota ég hendurnar því þá næ ég að nýta aldinkjötið sem best. Í sumum bitum eru misstór fræ og belgurinn utan um þau, ég fjarlægi það líka. Bætið þessu jafnóðum á pönnuna, sjá mynd að neðan.
 8. Erfiðasti parturinn varðandi þennan rétt er að skræla heitar kartöflurnar. Ég mæli með að vera búin að sjóða þær aðeins fyrr og ná að kæla þær í vatni. Skera þær svo í litla bita og bæta út á pönnuna.
 9. Látið réttinn malla á lægsta hita í 4-7 mínútur, svo jakaberin nái að draga bragðið í sig.
 10. Hægt er að útfæra réttinn á nokkra vegu eins og sést fyrir neðan. Þetta dugir fyrir ca 2-3 fullorðna.

Búið að hella safanum frá. Nú bíða bitarnir eftir því að verða bætt á pönnuna

Niðurtætt jakaber komin á pönnuna.

LEIÐBEININGAR – AÐRAR ÚTFÆRSLUR:

 1. Hægt er að setja réttinn í eldfast mót og inn í ofn þegar öllu hefur verið blandað saman. Með rifnum vegan osti yfir. Gott er að hafa ferskt salat með eða létt gufusoðið spergilkál (með smá salti og næringargeri yfir, því það er æðislega gott).
 2. Það er jafnvel hægt að vefja þessu inn í nori þarablöð eins og notað er í sushi gerð. Það gerir þetta að mínu mati ennþá betra og dýpkar sjávarbragðið enn meira. Nori blöðin verða þó blaut og örlítið seig undir tönn, en það er algjörlega þess virði. Ég lofa! Það er fallega litríkt að bera þetta fram með soðnum rófum, gulrótum og blómkáli.

  Hér hefur réttinum verið komið fyrir í nori blaði. Rúllað saman á álíka hátt og tortilla.

Ekki láta það draga úr þér máttinn að prófa þetta þó þú hafir aldrei heyrt um Kelp eða Jakaber, hvað þá keypt það. Ég mæli sterklega með því að Kelp sé eitthvað sem þú bætir við í eldhússkápinn. Ég mun bæta við fleiri réttum innan tíðar með þessu innihaldsefni auk þess sem það geymist ákaflega vel í loftþéttum umbúðum. Inn á síðu Íslenskrar Hollustu er hægt að finna sölustaðina.

Jakaber er yfirleitt hægt að fá í Fiska.is – Asian Supermarket, í Asian Market í Faxafeni (beint á móti 66°norður) og í Vietnam Market á Suðurlandsbraut. Passa samt upp á að kaupa dós merkta Young Green Jackfruit in Brine, í saltvatni – ekki í sýrópi.

Verum hugrökk í eldhúsinu,
kveðja Elísabet

Kanilsnúðar

Flestir kanilsnúðar eru sjálfkrafa vegan í búðum og bakaríum en heimagerðar uppskriftir eru ótrúlega oft með mjólk, eggjum og smjöri sem er alls ekki nauðsynlegt. Hér er uppskrift frá mömmu heitinni sem er ,,sjálfkrafa“ vegan og fáránlega góðir!

INNIHALDS EFNI:

 • 700gr hveiti
 • 1 1/2 tsk salt
 • 80gr sykur
 • 4 tsk þurrger
 • 4 dl volgt vatn
 • 1 dl jurtaolía

 

KANILSYKURINN:

 • 6 msk sykur
 • 1 msk kanill

Hitið ofninn í 50°C

LEIÐBEININGAR:

Blandið þurrefnunum saman með hrærivél, bætið svo vatninu og olíunni saman við, varlega fyrst og aukið svo hraðan. Degið þarf að hnoða í vel. Látið hefast með rökum klút yfir í 20-30 mínútur.

Fletjið degið út nokkurn vegin kassalaga, stráið kanilsykrinum yfir og rúllið upp í lengju, ég set smá olíu á fyrst en alls ekki nauðsynlegt.

Ég loka kantinum með með vatni og sleppi auka olíunni. Skerið í bita og setjið á bökunarplötu og inn í ofn í 45 mínútur til að hefast meira. Hægt að úða vatni á snúðana 2-3x (mamma gerði það, ég er of löt), takið snúðana út eftir hefun.

Hitið ofninn í 220°C

Bakið í 10-15 mínútur, lengd fer eftir ofnum svo mikilvægt að fylgjast vel með fyrst og skrá tímann á sínum ofni.

Einfaldur kakó, flórsykurs og vatns glassúr er mjög fínn á þessa snúða, en gætið þess að setja ekki á fyrr en þeir eru alveg kaldir, annars lekur glassúrin út um allt. Ég hef líka einfaldlega brætt suðusúkkulaði yfir og leyft að harðna eða gert glassúr með vegan matarlitum.

 

 

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

 

Smalabaka

Það sem mér finnst dásamlegast við smalabökur er fjölbreytileikinn og hvað margar útgáfur eru til, mér datt því í hug að deila minni útgáfu.

 

Ég elska smalabökur úr Puy linsum því það helst svo gott bit í þeim þrátt fyrir mikla eldun, ég hef verið að tilraunast með soyahakk og allskonar baunir en enda alltaf aftur í þessari því mér finnst hún einfaldlega best. Hráefnið í þessari smalaböku er einnig mjög aðgengilegt t.d. hef ég eldað hana á Siglufirði allt til í hana kjörbúðinni þar.

INNIHALD:

 • 3 dl – Grænar Puy linsur (hægt að skipta út fyrir aðrar linsur)
 • 2 L vatn
 • 1 sellerí stöngull (c.a. 30g)
 • 2-3 gullrætur (c.a. 100g)
 • 1 laukur (c.a. 150g)
 • 35g grænmetis kraftur
  (ég nota 1x Kallø franskur lauk tening og 2x Kallø tómat tening, en hægt að skipta út fyrir svipað magn af öðrum grænmetiskraft)
 • 70g tómatpúrra
 • 750g soðnar Kartöflur
 • Saxaður hvítlaukur (c.a. 10g)
 • 3 dL Plöntumjólk
  (Ég nota bláa provamel soyamjólk, finnst hún gefa creamy áferð, en hvaða plöntumjólk sem er dugar fyrir þá sem ekki þola soya)
 • 70g smjörlíki eða matarolíu
  (má sleppa og nota smá vatn í staðin til að steikja uppúr. Til eru flott vegan smjör t.d. Earth Balance Organic úr Gló og Nutana úr Krónunni)
 • Salt

Hitið ofninn í 170°C á blæstri.

LEIÐBEININGAR – BAUNAFYLLINGIN:

 • Vatnið og linsurnar settar í pott.
 • Grænmetiskraft og púrru bætt út í vatnið.
 • Grænmetið saxað fínt, helst svipað smátt og linsurnar, gætið þess þó að merja ekki laukinn og sellerí stilkinn.
 • Setjið grænmetið út í og sjóðið í c.a. 40 mínútur, gætið þess að hræra vel í í lokin svo það brenni ekki við þar sem blandan þykknar auðveldlega. Suðutími er misjafn, því best að miða við að það sé en bit í linsunum frekar en nákvæmann tíma.

LEIÐBEININGAR – KARTÖFLUMÚSIN:

 • Sjóðið kartöflurnar og afhýðið þegar tilbúnar.
 • Setjið smörlíkið og hvítlaukinn út í pott og steikið í stutta stund.
 • Bætið kartöflunum út í og stappið saman við smjörlíkið.
 • Bætið soyamjólkinni saman við og stappið þar til kartöflumúsin er orðin nokkuð jöfn.

LEIÐBEININGAR – SMALABAKAN:

Setjið fyllinguna í eldfast mót og bætið kartöflu mús ofan á, bakið við 170°C í 20 mínútur eða þar til kartöflumúsin er orðin fallega gyllt.

Mér finnst gott að bera fram með fersku salati og létt soðnu spergilkáli, en í raun hvað sem er gengur.

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

Heimagert Mayjónes

Verður að c.a. 250-300g

Gott er að hafa í huga að ekki öll plöntumjólk binds olíunni vel, lykilatriði hér er ertu prótein, soyabaunin er einmitt erta. Hægt er að nota t.d. safann af kjúklingabaunum (AquaFaba) sem eru einnig ertur eða af grænum ertum. En sem dæmi þá á Möndlumjólk það til að gera mayjónesið meira fljótandi og það skilur sig auðveldlega.

Ég persónulega vil hafa mayjónesið mitt hlutlaust og alls ekki of súrt, ég bæti & krydda svo til að fá aðrar sósur eins og sjá má neðst í uppskriftinni, en grunn mayjónesið mitt er mjög milt, okkurat eins og ég vil hafa það.

INNIHALD:

 • 100g Soya Mjólk
  (Ég nota Bláa Provamel sem er sætt með eplum ekki hvítum sykri)
 • 1/2 tsk salt
 • 1/5 – 1/4 tsk sinnepsduft (c.a. 1mL)*
 • 1/5 – 1/4 epla edik (c.a. 1mL)*
 • 1/5 – 1/4 tsk Laukduft (c.a. 1mL)
 • 2 tsk hreint hlynsýróp
 • 200g Matarolía

*Hægt er að skipta út eplaediki & sinnepsdufti fyrir tsk af dijon sinnepi.

 

LEIÐBEININGAR:

 1. Setjið plöntu mjólkina, saltið, sinnepsduftið, laukduftið, edikið & sýrópið í blandarann. Stillið blandarann á lítinn hraða og blandið.
 2. Hellið olíunni rólega ofan í á meðan blandarinn er enn í gangi.
 3. Setjið lokið aftur á og blandið þar til er kremkent og alveg stíft.
  Á sumum blöndurum þarf að stoppa og hrista og setja af stað nokkru sinnum, en í góðum blandara (2-3 hestöfl) þá verður það mjög stíft og flott með því að gera í einum rykk.

KOKTEILSÓSA:
Bæti við 4tsk af kartöfukryddi (ég nota frá Santa-María úr bónus það er vegan), eyk sinnepsduftið upp í 1/2 tsk og set c.a. 50g af tómatsósu.

REMÚLAÐI:
Bæti við 1tsk af túrmerik, 2msk af sætu sinnepi & söxuðum súrum gúrkum. Magn af gúrkum fer auðvitað eftir smekk en hefðbundin hlutföll eru 50/50.
Ég er hrifnust af ,,ORA agúrku salati“ fyrir þessa uppskrift, ég þerra gúrkurnar smá á tauþurku svo þær geri remúlaðið ekki of vatnskennt.

PÍTUSÓSA:
Bæti við 2msk af ,,herbs de providence“ sem er frönsk kryddjurtarblanda oftast samansett úr Blóðbergi (timían), kjarrmyntu (oregano), Sædögg (Rósmarín), Kryddmæru (majoram) & Savory (kryddplanta af varablómaætt) en þessi kryddblanda einkennir pítusósubragðið. Ástæðan fyrir því að ég tek fram hvað er í kryddblöndunni er að kannski eru fleiri eins og ég sem eiga flest kryddin sín ,,hrein“ og vilja frekar blanda sjálfir til að vita nákvæmlega hvað fer í matinn sinn, sem og að mér finnst sósan bragðast ótrúlega svipað ef ég sleppi kryddmæru og savory (á það oftast ekki til, a.m.k. ekki savory).

HVÍTLAUKS GRILL SÓSA:
Bæti við annað hvort 2 tsk af hvítlauksdufti eða ég gylli hvítlauk í hluta af olíunni sem fer saman við soyamjólkina í byrjun ferlisins. Hvítlaukur er gylltur með því að skera hann í tvennt og leggja á pönnu með olíu, þar til sárið verður gullbrúnt og olían nær að mýkja hann alveg upp í topp, best er að gylla með hýðið á, láta svo kólna og fjarlægja svo úr hýðinu. Mér persónulega finnst þetta meira gúrmé úr gylltum hvítlauk en nota alveg duftið í hallæri og þegar mér liggur á. Gyllti hvítlaukurinn maukast saman við allt í blandaranum ásamt olíunni sem hann var gylltur uppúr.

SINNEPSSÓSA:
Bæti við í lokin 160g sætt franskt sinnep (þá gaf uppskriftin mér 250g af mayjonesi), 10g sykur og 2g dill.

CHILLI MAYJÓ:
Mér finnst best að nota Sambal Oelek chilli mauk en ég hef líka maukað sjálf úr chilli og smá hvítlauk, það er frábært ef maður hefur tíma til að leyfa sósunni að ,,sitja“ smá. Ég hef verið að nota c.a. 40g af Sambal Oelek á móti einni uppskrift af mayjónesi (250g) en það er um að gera að finna þau hlutföll sem hentar manni best sjálfum.

 

 

 

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

 

Grænmetissúpa með kóríander & Pekan hnetum

Einstaklega bragðgóð grænmetissúpa sem við elskum að hafa í forrétt, t.d. á jólunum, pekan hneturnar og ferski kóríanderinn keyrir bragðlaukana í höfn.

INNIHALD:

 • 400gr Gulrætur
 • 200gr kartöflur
  (má skipta út fyrir sætar)
 • 1 laukur
 • 2-3 sellerístönglar
 • Blaðlaukur
 • 300gr Rauð paprika
 • 35g af grænmetiskraft
  (ég nota 1x Kallø franskur lauk tening og 2x Kallø grænmetis tening, en hægt að skipta út fyrir svipað magn af öðrum vegan grænmetiskraft)
 • 4 dL Plöntumjólk,
  (ég nota ýmist bláa soyamjólk frá Provamel eða kókosmjólk úr dós).
 • Matarolía
 • Ferskt kóríander (bætt út í þegar borin fram, ekki fyrr).
 • Pipar/Salt
 • Saxaður hvítlaukur (c.a. 20gr)
 • Saxað engifer (c.a. 20gr)

LEIÐBEININGAR:

 1. Skera papriku í sneiðar og baka í ofninum þannig að þær grillist.
 2. Steikja laukinn, engiferið og hvítlaukinn upp úr matarolíu
  (má sleppa olíu og nota vatn til steikingar).
 3. Skera kartöflur og gulrætur í bita og setja pottinn með lauknum og sjóða ásamt grænmetiskraftinum. Það þarf ekki að vanda sig við skurðinn, þetta verður maukað síðar, sjóðið án loks svo megnið af vatninu nái að gufa upp.
 4. Þegar grænmetið er orðið mjúkt er plöntumjólkinni bætt út í ásamt grilluðu paprikunni, allt saman er blandað í blandara eða matvinnsluvél, plöntumjólkin kælir aðeins svo tækið þolir það betur. Ég set súpuna svo oftast aftur á helluna maukaða og hita aðeins meira svo plöntumjólkin njóti sín betur.

 

PEKANHNETUR:
Ég blanda pekan hneturnar saman við gott hlynsýróp (gætið þess að það sé ekki sykurblandað) ásamt smá kanil og salti eftir smekk. Rista svo á ofnplötu á fjölnota bökunarmottu þar til sýrópið bubblar smá, gætið þess að sýrópið brennur mjög auðveldlega því er mikilvægt að fylgjast vel með. Þær soðna líka auðveldlega ef raðað er of þétt á ofnplötuna eða of mikið sýróp er notað.Læt þær standa smá, saxa svo og dreyfi yfir súpuna beint á diskinn ásamt fínt skornu fersku kóríander.

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

Gado Gado

Gado Gado er fáránlega auðveldur  indónesískur réttur en svo dásamlega góður, þú þarft ekki að elska hnetusmjör til að finnast Gado gado gott!

Til eru margvíslegar útgáfur af Gado-gado og alls ekki einhver ein rétt, þessi útgáfa finnst mér góð enda flest allt uppáhalds grænmetið mitt í henni!

 

 

 

INNIHALD:

 • 1x rauð paprika
 • Spergilkáls haus
 • 1-2 laukar
 • 2-4 kartöflur eftir stærð
 • 2-4 Gulrætur eftir stærð
 • 3 tsk salt
 • Chilli eftir smekk
 • Hvítlaukur eftir smekk
 • Ponsu olía til steikingar
 • 1 krukka af hreinu hnetusmjöri (varist að það sé auka fita í því eða sykur)
 • 1/2 dós kókoshnetumjólk (c.a. 80-90mL)

 

Mér finnst gott að hafa hrisgrjón með þessum rétti þrátt fyrir að tæknilega séð þýðir staka orðið Gado ,,án hrísgrjóna“, en hey, það er samt gott saman! Svo endilega sjóðið þau með.

 

LEIÐBEININGAR:

Byrjið á að sjóða kartöflurnar í potti. Skerðu gulræturnar í bita ásamt stilknum af spergilkálinu og laukinn. Steiktu upp úr olíu, þegar gulræturnar eru orðnar semi mjúkar, bættu þá paprikunni á pönnuna. Bættu kókoshnetumjólkinni (með vatni úr dósinni) út í og hnetusmjörinu. Leyfðu að sjóða en passaðu að hræra vel í því hnetusmjörið brennur mjög auðveldlega, bættu við vatni eftir þörfum til að sósan sé smá fljótandi. Bætið skornum kartöflum og blómunum af spergilkálinu út í restina og berið fram.

Njótið vel,
Kveðja Vigdís

Vegan Döðlu nammi

INNIHALD:

 • 250g ferskar döðlur
 • 130g vegan smjör
  (ég nota Earh balane organic úr Gló eða Nutana úr Krónunni)
 • 50g púðursykur
 • Poppuð hrísgrjón
  (athugið að ekki allt Rice Crispies er vegan en hægt er að fá í Nettó án D-vítamíns sem er vegan)
 • 250g suðusúkkulaði
 • Smá klumpur af kakósmjöri (má sleppa).

 

LEIÐBEININGAR:

 1. Ég sker döðlurnar frekar smátt (fjarlægi steina ef eru) og bræði saman í pott með vegan smjörinu, skelli svo púðursykrinum út þar til þetta er orðið klístrað og karmelukennt.
 2. Blanda poppuðu hrísgrjónunum saman við og set í form, persónulega set ég bökunarpappír undir (fjölnota) og svo í ísskáp eða frysti.
 3. Bræði súkkulaðið og kakósmjörið saman, gott að byrja á kakósmjörinu því það tekur lengri tíma en súkkulaðið. Kakósmjör kemur ekki í þægilegum einingum til að vigta því er talað um ,,klump“ en það gefur smá mjólkursúkkulaði tilfinningu. Hellið blöndunni yfir þegar botnin er orðinn kaldur og aftur inn í frysti eða ísskáp.
 4. Takið út þegar súkkulaðiblandan er orðin hörð og skerið í kubba.
Njótið vel,
Kveðja Vigdís

Pönnukökur

Amerískar

INNIHALD:

 • 150g hveiti
 • 2 msk sykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 300ml vatn
 • 1 msk olía

 

LEIÐBEININGAR:

 1. Sigtið hveitið, sykurinn, lyftiduftið og salitið í stóra skál. Þeytið vatnið, olíuna saman í minni skál.
 2. Gerðu holu í miðjuna á þurrefnunum og hellið vatninu og olíunni saman þar ofan í. Hrærið þar til það hefur blandast vel, athugið að degið verður kekkjótt.
 3. Hitið á pönnu með smá olíu á miðlungs til háum hita.
 4. Setjið degið á pönnuna með ausu, hitið þar til loftbólur myndast og endarnir þorna. Snúið við og eldið þar til hún verður gullinn á hinni hliðinni. Endurtakið með afganginn af deginu 🙂

 

Íslenskar / Crepés

INNIHALD:

 • 200gr Aqua faba (óþeyttur c.a. ein dós)
 • 1 tsk salt
 • 830gr Plöntumjólk
 • 380gr Hveiti

LEIÐBEININGAR:

 1. Blandið vel saman með handrærara.
 2. Prufið að steikja eina, ef að degið rennur ekki auðveldlega til um pönnuna þarf að þynna með meiri mjólk, bætið c.a. matskeið í einu við.
 3. Ef þær verða of ,,crispy” lækkið hitann aðeins.
 4. Ég bæti svo olíu í degið eftir þörfum, til að koma í veg fyrir að þær festist við pönnuna.

Verði ykkur að góðu,
Kveðja Sveinn