Listin að gera ekki neitt.

Við höfum öll verið börn og flest höfum við á einhverjum tímapunkti hjálpað dýri í vandræðum. Hvort sem það er að hleypa flugu út um gluggann, aðstoðað ánamaðk í mikilli rigningu við að komast á þurrara svæði, eða bjarga litlum kettlingi sem finnst einn úti á vergangi. Það þarf ekki að vera mikið eða stórt til að manni líði vel í hjartanu yfir því að hafa getað hjálpað. Samkennd er nefnilega stór partur af okkur flestum og að hjálpa öðrum gefur manni svo mikið.

Af einhverjum ástæðum virðumst við samt vaxa uppúr hjálpsemi um tíma. Það er eins og unglingsárin taki af manni hluta af samkenndinni og skili henni aldrei aftur nema að litlum hluta. Á fullorðinsárum virðumst við svo ekki hafa nægan tíma til að hafa áhyggjur af svona smámunum. En innst inni erum við ennþá þessi börn sem reyndum í lengstu lög að bjarga öllum ormunum. Það er bara ákveðin vörn fyrir okkur sjálf að gefa okkur ekki tíma í að hjálpa hverju smádýri. Það má e.t.v. færa rök fyrir því að við myndum gera lítið annað í lífinu ef við ætluðum að hjálpa hverju einasta dýri og þ.a.l. lærum við að hundsa margt. Við lærum meira að segja að gera það sama gagnvart öðru fólki því ekki förum við að bjóða öllum þeim sem búa á götunni að búa heima hjá okkur. Þá allavega byggi enginn á götunni býst ég við.

Samt erum við ekki vont fólk. Við gerum flest það sem við teljum okkur ráða við án þess að það taki of mikið af okkur sjálfum. Það gerum við í formi ýmiskonar hjálparstarfa hvort sem er í sjálfboðaliðastarfi, atvinnu eða bara leggja til mánaðarlegt framlag til hverskonar hjálparstofnana. Flest viljum við gera vel við aðra, bæði menn og dýr, en misjafnt hvað fólk er tilbúið að eyða í það miklum tíma eða peningum. Það er þó ekki mælikvarði á ágæti fólks enda er það frumþörf okkar að huga að sjálfum okkur, okkar nánustu og tengslum í okkar samfélagi.

Með tímanum verðum við ákveðnir snillingar í að dreifa ábyrgð. Horfa framhjá hinum ýmsu hlutum vegna þess að þetta er ekki okkar vandamál og einhver annar kemur til með að redda þessu. Þetta er sjálfsagt bara okkar leið til að halda geðheilsu því það er endalaust af hlutum sem þarf að laga og endalaust af dýrum og fólki sem gæti þegið aðstoð. Listin að gera ekki neitt hjálpar okkur þannig við að lifa lífinu.

En um leið og ábyrgðin er sett í okkar hendur breytist allt. Það er nú á okkar ábyrgð að nýfæddi kettlingurinn sem barnið rétti okkur, eftir að hafa fundið hann úti, komist á legg og fái viðeigandi meðhöndlun. Við getum líka fundið annan til að sinna þessu sem er betur til þess fallin en við sjálf og tekið ábyrgðina þannig. Ef við gerum ekkert er nokkuð víst að kettlingurinn mun deyja. Þó að við tökum á okkur ábyrgð á einu dýri í neyð, þíðir það samt ekki að við þurfum að bjarga þeim öllum og heldur ekki að við þurfum að taka að okkur að hjálpa öllu fólkinu sem þarf aðstoð. Ef einhver segði við okkur að það væri vitleysa að hjálpa þessum litla kettlingi vegna þess að við komumst aldrei yfir að hjálpa þeim öllum þætti okkur það e.t.v. frekar kjánalegt því okkar framlag skipti sköpum fyrir líf þessa kettlings. Líf hans og vellíðan skiptir okkur, en umfram allt hann sjálfan máli.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir geri allt, en einhverjir geta gert eitthvað og því fleiri sem gera eitthvað því betra. Einhverjir fara alla leið, gera eins mikið og þeir geta og jafnvel hvetja aðra til að leggja sitt af mörkum eða allaveg hugsa um hvað væri hægt að gera. En því er oft tekið sem árás á rétt fólks til að gera ekki neitt og svokallaðir aktivistar eru teknir fyrir og gert lítið úr framlagi þeirra því þeir eru ekki sjálfir að bjarga öllum heiminum þó þeir geri sitt allra besta. En það eru líka eðlileg viðbrögð. Með því að segja okkur að við getum gert betur er verið að ráðast á okkar lifnaðarhætti og það er í eðli okkar að verja okkur fyrir slíkum árásum, jafnvel þó árásin sé bara í saklausum orðum viðmælanda eða ókunnugs pistlahöfundar.

Veganismi snýst um að gera sitt besta fyrir dýrin. Enginn getur bjargað þeim öllum og enginn er fullkominn, en allir geta gert eitthvað. Það má virðast öfgafullt í fyrstu að hætta algerlega neyslu á öllum dýraafurðum, alla leið niður í hunang frá býflugum eða litarefni búin til úr maurum, en samkennd er ekki öfgafull og samkennd í verki ætti ekki að þurfa að réttlæta eða verja fyrir öðrum sem reyna að verja sitt aðgerðarleysi með spurningum sem oft á tíðum eru settar fram til að eiga draga úr heiðarleika þess að vera vegan.

Á hverjum degi bjarga hjálparsveitir um allan heim fólki.
Á hverjum degi bjarga læknar, hjúkrunarfólk og sjúkraliðar mannslífum.
Á hverjum degi hjálpa styrktaraðilar SOS barnaþorpanna börnum sem á þurfa að halda.
Á hverjum degi bjargar vegan fólk lífi dýra.
Á hverjum degi ná vegan aktívistar til fleira fólks sem í framtíðinni mun bjarga lífum dýra.

Þegar hverskonar hjálparstarfsemi hrindir af stað styrkarsöfnun fyrir málstað sínum fær það almennt ekki svör á borð við “Ég ræð hvort ég styrki nokkuð!” Hjálparstarfsemin fær ekki á sig óorð fyrir að troða sér uppá aðra þegar þau auglýsa eftir nýjum meðlimum til að halda starfinu gangandi. En af einhverjum ástæðum fær manneskja sem talar um veganisma, oft eftir að hafa verið spurð útí hann, á sig stimpil um að vera uppáþrengjandi með skoðanir sínar og annað á þá leið.
Að sjálfsögðu eru skemmd epli í hverjum hópi. Það er klárlega til vegan fólk sem dæmir aðra fyrir að fylgja ekki sinni sannfæringu og hið sama hefur gerst með einstaka einstaklinga innan annarra hjálparstarfa. En það er ekki hin almenna skoðun innan veganismans frekar en innan annarra hjálparstarfa eða réttindabaráttuhópa. Tilgangur þessa hópa er að hjálpa þeim sem á þurfa að halda og fá fleiri með sér í lið, en ekki að dæma þá sem ekki ganga til liðs við þá í dag eða á morgun.

Það þarf enginn að ganga til liðs við hjálparsveit, SOS barnaþorpin, vegan samtökin, félag femínista eða öryrkjabandalagið og það ber heldur engum skylda til að styrkja neinskonar hjálparstarf. En það þarf enginn að draga úr starfi þeirra heldur með illu umtali eða leiðindum gagnvart liðsmönnum þeirra.

Gerum það sem við getum til að leggja öðrum lið.
Ekki gera ekki neitt.
Kveðja Dóra Ásgeirsdóttir

8 mikilvæg skref að því að gerast Vegan

Fyrir nokkru tók ég þá ákvörðun að gerast Vegan (ísl. Grænkeri) og þótt ég sé ekki orðin neinn meistari langaði mér að deila með ykkur reynslu minni og ráðum ef einhverjum gagnast. Grænkerar eru þeir sem nota ekki dýraafurðir. Hér ætla ég að tala um mataræðisbreytinguna.

1) Vertu viss um afhverju þú ert að taka þessa ákvörðun

Þeir grænkerar sem ég hef hitt síðan ég breytti um mataræði hafa gert það af mismunandi ástæðum. Sumir hafa heilsuna í fyrirrúmi, flestir gerast grænkerar vegna umhverfis eða dýraverndarsjónarmiða og enn aðrir eru einfaldlega nýjungagjarnir. Það skiptir þónokkru máli að vita afhverju þú ert að breyta til því það hjálpar þér að halda þig við ákvörðunina seinna meir ef þú vilt halda út til lengdar.

2) Taktu ákvörðun um hve hratt þú ætlar af stað

Sumir gerast grænkerar á viku og aðrir taka sér lengri tíma til. Ef þú ert ekki ennþá viss er líklegast best að skipta út einu atriði í einu og nálgast þannig takmarkið hægt en sígandi. Engin þarf að vera fullkominn og öll skref sem þú tekur hafa einhver áhrif. Ef þú ert allveg viss eins og ég var er best að skella sér bara í djúpu laugina, ég ákvað að klára það sem væri ekki viðeigandi fyrst úr eldhúsinu og reyna eftir bestu getu að kaupa eingöngu Vegan inn það sem ég keypti eftir það. Það hefur reynst mér mjög vel. Það kom mér líka mikið á óvart hve margt var Vegan sem ég átti. Hverjum hefði til dæmis dottið í hug að rjómalagða brokkolísúpuduftið og brauðið sem ég kaupi alltaf væri Vegan! Sumir gefa hlutina sem passa ekki í mataræðið eða láta þeim sem ekki eru grænkerar eftir á heimilinu að klára kjötið.

3) Skoðaðu hvað þú þarft að helst að forðast

Hér er ég að tala um það sem er stærsti partur mataræðisins sem þú átt eftir að hætta að borða. Hjá mér voru til dæmis mjólkurvörur stærsta hindrunin. Ég drakk alltaf drykkjarjógúrt ef ég vissi ekki hvað mig langaði í og vantaði hraðan millibita, ég drakk mikið af kókómjólk, og ostur og skyr voru mjög mikið nammi fyrir mér auk auðvitað eftirrétta eins og ís. Mjólk og kókómjólk var lítið vandamál, það eru svo margar tegundir af plöntumjólk að vandinn er bara að velja úr þeim. Ég ákvað að eiga alltaf banana fyrir skyndihungur og seinna keypti ég mér allskyns millibita eins og fíkjustykki. Ég ákvað að láta skyrið mæta afgangi og ég hef ekki fundið þörf fyrir það ennþá og ég er ennþá að prófa þá tugi jurtaosta sem í boði eru. Sumir eru æði, aðrir henta mér ekki og svo er fáránlegt hve næringarger er góður bragðstaðgengill fyrir ost í sósur og annað slíkt. Viku eftir að ég gerðist grænkeri kom svo Vegan Ben&Jerry’s í búðir. Einhver æðri máttur elskar mig greinilega. Atriði 1 á þessum lista heldur mér svo við efnið .

4) Eignastu vini sem kunna þetta (alvöru og á netinu)

Ástæðan fyrir því að ég gerðist grænkeri var að vinur minn sem býr úti gisti hjá mér og eldaði Vegan fyrir mig í viku. Heppna ég. Þetta hafði alveg hvarflað að mér fyrr en vinur minn kláraði málið. Ég fann mikin mun á meltingunni og elskaði matinn svo ég fór bara af stað. Hann er löngu farinn heim en ég kom mér upp tengslum við Íslendinga á Facebook og afþví ég er mikið á Snapchat þá er það gæðavettvangur til að tengjast fólki (bættu mér við barahalldors ;). Youtube er líka troðið af Vegan dýrgripum og svo er ekkert að því að lesa eina og eina bók eða vefsíðu. Grænkerar er allir búnir að vera í þínum sporum og eru fáránlega tilbúnir að svara furðulegustu spurningum. Það er líka mikill stuðningur í að tengjast öðrum sem eru að gera það sama og þú.

5) Vertu tilbúin/n með nokkrar grunnuppskriftir (alvöru og á netinu)

Hugmyndaleysið er algerlega magnað þegar maður hefur verið að elda sama matinn alla ævi. Hér eru mínar grunnuppskriftir og fyrstu vikurnar eldaði ég bara þær. Svo bættust ýmsir hlutir við:

  1. Seitan í stað kjöts
  2. Tófú hræra sem bragðast eins og eggjahræra
  3. Mac & Cheese sem sannfærði mig um að ostur væri aukaatriði
  4. Magnað grænkálssalat
  5. Morgun hristingur

6) Skoðaðu búðir sem sérhæfa sig í hráefnum fyrir grænkera og farðu út að borða þar sem er Vegan matseðill

Margar af mínum bestu hugmyndum hef ég fengið af því að borða mat hjá öðrum eða skoða í hillur. Fáðu líka nýju vinina þína til að segja þér hvað og hvernig þeir kaupa inn. Eða gömlu vinina ef þú ert svo heppin/n að eiga þegar grænkera vini. Kíktu á Vegan veitingastaði, það er miklu meira en bara salat í boði.

7) Vertu viðbúin/n að gera mistök

Ég veit ekki hve oft ég keypti eitthvað með eggjum eða mjólk óvart fyrstu vikurnar. Þar sem ég gat skilaði ég vörunni en annars bara borðaði ég matinn og lærði af reynslunni. Mundu líka að Veggie er ekki endilega Vegan heldur oft Vegiterian (fyrir grænmetisætur). Munurinn er að Vegiterians borða líka mjólkurvörur og egg. Gott ráð sem vinur minn kenndi mér var að egg og mjólk eru oft feitletruð í innihaldslýsingum afþví þau eru ofnæmisvaldar og því auðvelt að sjá það út í mörgum tilfellum.

8) Vertu tilbúin/n ef fjölskyldan fylgir ekki með í pakkanum

Það að þú ákveðir að gerast grænkeri þýðir ekki að fjölskyldan þín fylgi með. Ég er eina Vegan manneskjan á mínu heimili, maðurinn minn er að mestu leyti farinn að borða það sama og ég en sonur minn fylgdi bara að hluta til með. Þegar ég fer á annarra manna heimili reyni ég að gera ráð fyrir að taka með mér aukabita og afþví að ég get ekki drukkið kaffi án mjólkur tek ég mína eigin jurtamjólk með mér hvert sem ég fer. Smám saman er ég líka farin að vita hvað er óhætt að borða og hvað ekki og get þá nýtt mér það á ferðum mínum.

Gangi þér vel!
Kveðja Bára

Þessi grein birtist upphaflega á Kvennablaðinu 23.09.2016 og er birt hér með góðfúslegu leyfi þess og höfundar, Báru Halldórsdóttur.

Hjartanlega velkomin á Vegan Lífið!

Hjartanlega Velkomin á Vegan Lífið!

Hér er meiningin að vera með fræðslugreinar úr ýmsum áttum tengdar veganisma ásamt uppskriftum og leiðbeiningum fyrir nýtt vegan fólk að feta sín fyrstu spor inn í Lífsstílinn!

Read more